Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 389, 155. löggjafarþing 298. mál: stuðningslán til rekstraraðila í Grindavíkurbæ vegna jarðhræringa á Reykjanesskaga.
Lög nr. 130 26. nóvember 2024.

Lög um stuðningslán til rekstraraðila í Grindavíkurbæ vegna jarðhræringa á Reykjanesskaga.


1. gr.

Gildissvið.
     Lög þessi gilda um einstaklinga og lögaðila sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi í Grindavíkurbæ, hófu starfsemina fyrir 10. nóvember 2023 og bera ótakmarkaða skattskyldu hér á landi skv. 1. eða 2. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003. Lögin gilda ekki um opinbera aðila, svo sem stofnanir, byggðasamlög og fyrirtæki í eigu ríkis eða sveitarfélaga.

2. gr.

Markmið.
     Markmið laga þessara er að viðhalda atvinnustarfsemi rekstraraðila í Grindavíkurbæ, einkum minni rekstraraðila sem hafa orðið fyrir tekjufalli vegna jarðhræringa á sunnanverðum Reykjanesskaga, eða eftir atvikum að aðstoða rekstraraðila til að byggja upp starfsemi annars staðar á landinu.

3. gr.

Orðskýringar.
     Í lögum þessum er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
  1. Atvinnurekstur eða sjálfstæð starfsemi: Starfsemi aðila sem greiðir laun skv. 1. eða 2. tölul. 5. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987, og er skráður á launagreiðendaskrá, svo og á virðisaukaskattsskrá þegar það á við.
  2. Föst starfsstöð: Föst atvinnustöð þar sem starfsemi rekstraraðila fer að nokkru eða öllu leyti fram, sbr. ákvæði laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, sbr. einnig reglugerð um fasta starfsstöð, nr. 1165/2016.
  3. Rekstraraðili: Einstaklingur eða lögaðili sem fellur undir gildissvið laga þessara skv. 1. gr.
  4. Rekstrarkostnaður: Rekstrarkostnaður skv. 1. tölul. 31. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, að frátöldum niðurfærslum og fyrningum eigna.
  5. Stuðningslán: Lán með ábyrgð ríkissjóðs skv. 4. og 5. gr.
  6. Tekjur: Skattskyldar tekjur skv. B-lið 7. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, að frátöldum hagnaði af sölu rekstrareigna.


4. gr.

Skilyrði.
     Ríkissjóður ábyrgist, eftir því sem nánar greinir í 2. mgr. 5. gr., stuðningslán sem lánastofnun, á grundvelli samnings skv. 13. gr., veitir fyrir 1. júní 2025 til rekstraraðila sem uppfyllir öll eftirtalin skilyrði:
  1. Rekstraraðili var með fasta starfsstöð í Grindavíkurbæ 10. nóvember 2023.
  2. Tekjur hans á 60 daga samfelldu tímabili frá 10. nóvember 2023 til 10. október 2024 voru a.m.k. 40% lægri en á sama 60 daga tímabili árin 2022 og/eða 2023 og lækkunina má rekja til áhrifa af jarðhræringum á Reykjanesskaga. Hafi hann hafið starfsemi það seint að ekki er unnt að bera saman tekjur hans á sama 60 daga tímabili bæði ár skulu tekjur hans á 60 daga samfelldu tímabili frá 10. nóvember 2023 bornar saman við meðaltekjur hans á 60 dögum frá því að hann hóf starfsemi til 31. október 2023.
  3. Tekjur hans á rekstrarárinu 2022 voru að lágmarki 15 millj. kr. og að hámarki 1.500 millj. kr. Hafi hann hafið starfsemi eftir 1. janúar 2023 skal umreikna tekjur þann tíma sem hann starfaði til 31. október 2023 á ársgrundvöll.
  4. Rekstraraðili hefur ekki greitt út arð eða óumsamda kaupauka, keypt eigin hlutabréf, greitt af víkjandi láni fyrir gjalddaga eða veitt eigendum eða nákomnum aðilum lán eða aðrar greiðslur sem eru ekki nauðsynlegar til að viðhalda rekstri og rekstrarhæfi sínu frá 10. nóvember 2023 og skuldbindur sig til að svo verði ekki þann tíma sem ábyrgðar ríkissjóðs nýtur við. Hugtakið nákominn aðili skal túlkað til samræmis við 3. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991.
  5. Rekstraraðili er ekki í vanskilum með opinber gjöld, skatta og skattsektir sem komnar voru á eindaga fyrir 10. nóvember 2023 og álagðir skattar og gjöld byggjast ekki á áætlunum vegna vanskila á skattframtölum og skýrslum, þ.m.t. staðgreiðsluskilagreinum og virðisaukaskattsskýrslum, til Skattsins síðastliðin þrjú ár áður en umsókn barst eða síðan hann hóf starfsemi ef það var síðar. Að auki skal hann, eftir því sem við á og á sama tímabili, hafa staðið skil á ársreikningum, sbr. lög um ársreikninga, upplýst um raunverulega eigendur, sbr. lög um skráningu raunverulegra eigenda, og staðið skil á skýrslu um eignarhald á CFC-félagi, sbr. 10. gr. reglugerðar um skattlagningu vegna eignarhalds í lögaðilum á lágskattasvæðum, nr. 1102/2013.
  6. Rekstraraðili hefur ekki verið tekinn til slita eða bú hans til gjaldþrotaskipta.

     Rekstraraðili getur fengið allt að tvö stuðningslán en samanlögð fjárhæð má þó ekki verða hærri en leiðir af 5. gr.

5. gr.

Fjárhæð og lánstími.
     Stuðningslán getur numið allt að 20% af tekjum rekstraraðila á rekstrarárinu 2022. Hafi rekstraraðili hafið starfsemi eftir 1. janúar 2023 skal umreikna tekjur þann tíma sem hann starfaði til 10. nóvember 2023 á ársgrundvöll. Stuðningslán geta þó ekki orðið hærri en 49 millj. kr.
     Ríkissjóður ábyrgist 90% af fjárhæð stuðningsláns skv. 1. mgr., auk vaxta skv. 11. gr. í sama hlutfalli.
     Lánstími stuðningslána skal að hámarki vera 72 mánuðir.

6. gr.

Umsókn.
     Umsókn um stuðningslán skal beint til lánastofnunar sem samið hefur verið við um veitingu stuðningslána með ábyrgð ríkissjóðs, sbr. 13. gr.
     Ríkisábyrgð skv. 2. mgr. 5. gr. heldur gildi sínu gagnvart lánveitanda þótt í ljós komi að stuðningslán hafi verið veitt án þess að öll skilyrði fyrir ríkisábyrgð hafi verið uppfyllt nema sýnt sé fram á að lánveitandi hafi bersýnilega mátt ætla að umsókn byggðist á ófullnægjandi upplýsingum.
     Þrátt fyrir ákvæði 117. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, er Skattinum heimilt, samkvæmt beiðni lánastofnunar skv. 1. mgr., að miðla tiltækum upplýsingum sem eru nauðsynlegar skv. 1. gr. og 2.–5. tölul. 1. mgr. 4. gr. til að meta hvort umsækjandi um stuðningslán uppfylli skilyrði fyrir lánveitingu og hvert hámark hennar geti orðið. Lánastofnanir sem fá aðgang að slíkum gögnum eru bundnar þagnarskyldu um veittar upplýsingar og er óheimilt að nýta þær í öðrum tilgangi. Rekstraraðili skal staðfesta við umsókn að honum sé kunnugt um að Skatturinn kunni að veita upplýsingar á þessum grundvelli og um úrvinnslu þeirra.

7. gr.

Afgreiðsla.
     Lánastofnun afgreiðir stuðningslán með ríkisábyrgð til rekstraraðila sem fullnægir skilyrðum 4. gr. og ákvarðar fjárhæð og lánstíma þess í samræmi við 5. gr.
     Ákvæði laga þessara standa ekki í vegi fyrir því að lánastofnun veiti rekstraraðila hærra lán en mælt er fyrir um í 5. gr., en lán umfram hámarksfjárhæð skv. 5. gr. verður án ríkisábyrgðar.

8. gr.

Rafræn skuldabréf.
     Rafrænt skuldabréf vegna stuðningsláns sem undirritað hefur verið með fullgildri rafrænni undirskrift skal teljast uppfylla áskilnað í öðrum lögum um frumrit skuldabréfs. Þá skal rafræn móttaka slíks skuldabréfs teljast uppfylla áskilnað í öðrum lögum um framlagningu frumrits skuldabréfs.

9. gr.

Nýting.
     Stuðningslán má aðeins nýta til að standa undir rekstrarkostnaði lánþega eða til að byggja upp starfsemi utan Grindavíkurbæjar telji rekstraraðili að ekki séu forsendur fyrir áframhaldandi rekstri á svæðinu vegna jarðhræringa. Óheimilt er að nýta stuðningslán til að borga af eða endurfjármagna önnur lán.

10. gr.

Lánskjör.
     Stuðningslán er óverðtryggt og ber vexti sem eru jafnháir vöxtum af sjö daga bundnum innlánum lánastofnana hjá Seðlabanka Íslands hverju sinni.
     Lánastofnun er heimilt að innheimta þóknun sem skal dregin frá upphæð stuðningsláns við útborgun þess til að standa undir kostnaði við umsýslu stuðningslána.

11. gr.

Endurgreiðsla.
     Stuðningslán, að meðtöldum vöxtum, skal að jafnaði endurgreitt með jöfnum greiðslum síðustu 36 mánuði lánstímans, með fyrirvara um vanefndaúrræði lánastofnunar. Lántaka er heimilt að greiða upp eða inn á stuðningslán án uppgreiðsluþóknunar hvenær sem er á lánstíma. Um höfuðstólsfærslu vaxta fer skv. 1. mgr. 12. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001.

12. gr.

Ofgreiðsla.
     Hafi rekstraraðili fengið stuðningslán umfram það sem hann átti rétt á ber honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var með áföllnum vöxtum skv. 1. mgr. 10. gr.

13. gr.

Samningar við lánastofnanir.
     Ráðherra er heimilt að semja við lánastofnanir um framkvæmd þeirra á stuðningslánum og samskipti þeirra vegna umsýslu lánanna, þar á meðal um uppgjör ábyrgðar ríkissjóðs á lánunum og upplýsingagjöf lánastofnana til viðkomandi aðila. Í samningi við lánastofnanir skal eftir atvikum fjallað um þóknanir lánastofnana, sbr. 2. mgr. 10. gr.
     Ráðherra er heimilt að fela öðrum ríkisaðila eða semja við sérhæfða aðila á almennum markaði um að annast umsýslu vegna ábyrgðar ríkissjóðs á stuðningslánum, þar á meðal uppgjör ábyrgðar.

14. gr.

Reglugerðarheimild.
     Ráðherra getur kveðið nánar á um framkvæmd laga þessara í reglugerð.

15. gr.

Lagaskil.
      Stjórnsýslulög, nr. 37/1993, upplýsingalög, nr. 140/2012, og lög um umboðsmann Alþingis, nr. 85/1997, eiga ekki við um ákvarðanir um veitingu stuðningslána á grundvelli laga þessara.

16. gr.

Gildistaka.
     Lög þessi öðlast þegar gildi.

17. gr.

Breyting á öðrum lögum.
     Við gildistöku laga þessara verður eftirfarandi breyting á lögum um ríkisábyrgðir, nr. 121/1997: Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     Ákvæði laga þessara gilda ekki um þær ábyrgðarskuldbindingar sem ríkissjóði er heimilt að undirgangast gagnvart lánastofnunum samkvæmt lögum um stuðningslán til rekstraraðila í Grindavíkurbæ vegna jarðhræringa á Reykjanesskaga.

Samþykkt á Alþingi 15. nóvember 2024.