Fara í innihald

Chun Doo-hwan

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Chun Doo-hwan
전두환
Chun Doo-hwan árið 1980
Forseti Suður-Kóreu
Í embætti
1. september 1980 – 24. febrúar 1988
ForsætisráðherraYoo Chang-soon
Kim Sang-hyup
Chin Iee-chong
Lho Shin-yong
Lee Han-key
Kim Chung-yul
ForveriChoi Kyu-hah
EftirmaðurRoh Tae-woo
Persónulegar upplýsingar
Fæddur18. janúar 1931
Naisen-ri, Rigokku-men, Keishōnan-dō, Chōsen (nú Hapcheon-sýslu, Suður-Gyeongsang-héraði, Suður-Kóreu)
Látinn23. nóvember 2021 (90 ára) Seúl, Suður-Kóreu
DánarorsökMergæxli
StjórnmálaflokkurLýðræðislegi réttlætisflokkurinn
MakiLee Soon-ja (g. 1958)
TrúarbrögðMótmælandi (frá 2010),
Kaþólskur (fyrir 2010),
Búddisti (áður)
Börn4
HáskóliKóreska hernaðarakademían (B.S.)
StarfHermaður, stjórnmálamaður
Undirskrift

Chun Doo-hwan (kóreska: 전두환; 6. mars 1931 – 23. nóvember 2021) var suður-kóreskur stjórnmálamaður og hershöfðingi sem var fimmti forseti Suður-Kóreu frá 1980 til 1988. Chun var síðasti einræðisherrann sem stýrði Suður-Kóreu áður en lýðræði var komið á í landinu.

Chun Doo-hwan komst til valda í herforingjabyltingu árið 1979 eftir að forsetinn Park Chung-hee var myrtur.[1] Eftir morðið á Park, sem hafði ríkt sem einræðisherra, hafði Choi Kyu-hah tekið við forsetaembættinu og hafið að leysa pólitíska fanga úr haldi og lofa umboðum í lýðræðisátt.[2]

Árið 1980 fóru fram fjöldamótmæli gegn herforingjastjórninni í borginni Gwangju þar sem Suður-Kóreumenn kröfðust þess að lýðræðislegar kosningar yrðu haldnar.[3] Stjórn Chuns mætti mótmælendunum með hervaldi og í átökum milli mótmælenda og hermanna voru minnst 200 manns drepnir samkvæmt opinberum tölum. Aðrir vilja meina að fjöldi hinna látnu hafi verið allt að þrisvar sinnum hærri. Átökin leiddu til þess að Chun hlaut viðurnefnið „slátrarinn í Gwangju.“[4] Í kjölfar ofbeldisins sagði Choi Kyu-hah af sér og Chun tók formlega við forsetaembættinu.[2]

Sem forseti lagði Chun áherslu á að uppræta fjármálaspillingu sem hafði blómstrað í Suður-Kóreu á stjórnartíðum forvera hans. Hann þótti jafnframt sýna suður-kóreska þjóðþinginu meiri virðingu en Park Chung-hee hafði gert. Í utanríkismálum lagði Chun áherslu á áframhaldandi nána samvinnu við Bandaríkin og þáði jafnframt ríkulega efnahagsaðstoð frá Japan.[2] Á stjórnartíð sinni bannaði Chun verkföll til þess að halda launum verkamanna niðri og vernda samkeppnisstöðu Suður-Kóreu á heimsmarkaðinum.[5] Á stjórnartíma Chuns var uppgangur í efnahagslífi Suður-Kóreu auk þess sem Sumarólympíuleikarnir 1988 voru haldnir í Seúl.[4]

Fjöldamótmæli gegn einræðisstjórn Chuns hófust að nýju árið 1987. Fleiri en 900 uppþot áttu sér stað á suður-kóreskum vinnumarkaði þetta ár auk þess sem blásið var til fjölda verkfalla, sem höfðu þá verið heimiluð í samræmi við yfirstandandi umbótaherferð. Mótmæli stúdenta og verkamanna áttu þátt í því að Chun gaf þann 1. júlí 1987 út yfirlýsingu um að raunverulegu lýðræði skyldi komið á í landinu.[5]

Lýðræðislegar forsetakosningar voru haldnar í Suður-Kóreu í desember 1987. Í kosningunum gekk stjórnarandstaðan sundruð fram og bauð fram tvo frambjóðendur, Kim Young-sam og Kim Dae-jung. Vegna klofningsins vann bandamaður Chuns, Roh Tae-woo, sem hafði verið samverkamaður hans í valdaráninu 1979 og uppreisninni í Gwangju, sigur og var kjörinn forseti.[6]

Chun baðst afsökunar á gerðum stjórnar sinnar í ávarpi sem hann gaf út í nóvember árið 1988. Kröfur um að hann yrði leiddur fyrir rétt og ákærður voru engu að síður áfram háværar og stúdentar efndu til mótmæla til þess að fá hann framseldan eða tekinn af lífi.[7] Árið 1996 var Chun sakfelldur fyrir landráð og dæmdur til dauða, meðal annars vegna fjöldamorðanna í Gwangju. Aftakan fór hins vegar aldrei fram og hann var að endingu náðaður af forseta landsins og látinn laus.[4]

Chun lést árið 2021 í höfuðborginni Seúl, níræður að aldri. Moon Jae-in, þáverandi forseti landsins, vottaði fjölskyldu hans samúð sína en lýsti yfir vonbrigðum með að hann hefði aldrei gefið frá sér einlæga afsökunarbeiðni fyrir ofbeldisverk stjórnarinnar og að stjórnvöld hefðu enn ekki enn klárað að rannsaka þau að fullu.[1][4]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. 1,0 1,1 Þórgnýr Einar Albertsson (23. nóvember 2021). „Fyrrverandi harðstjóri Suður-Kóreu látinn“. RÚV. Sótt 24. nóvember 2021.
  2. 2,0 2,1 2,2 Magnús Sigurðsson (12. október 1983). „Skammt á milli ógnaratburðanna“. Morgunblaðið. bls. 39.
  3. Atli Ísleifsson (23. nóvember 2021). „Fyrr­verandi for­seti Suður-Kóreu er látinn“. Vísir. Sótt 24. nóvember 2021.
  4. 4,0 4,1 4,2 4,3 „Fyrrverandi harðstjóri S-Kóreu látinn“. mbl.is. 23. nóvember 2021. Sótt 24. nóvember 2021.
  5. 5,0 5,1 „Dýrkeypt tilraun“. Alþýðublaðið. 3. september 1987. bls. 1.
  6. „Sundruð stjórnarandstaða færði stjórnarliða sigur“. Tíminn. 18. desember 1987. bls. 12.
  7. „Roh hyggst gefa Chun upp sakir“. Morgunblaðið. 25. nóvember 1988. bls. 22.


Fyrirrennari:
Choi Kyu-hah
Forseti Suður-Kóreu
(1. september 198024. febrúar 1988)
Eftirmaður:
Roh Tae-woo


  Þetta æviágrip sem tengist stjórnmálum er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.