Breyta
Útlit
Breyta er eiginleiki í efnislegu eða huglægu kerfi sem getur tekið fleiri en eitt sjáanlegt gildi. Breyta er því andstæða fasta, sem tekur aðeins eitt gildi og er því alltaf eins. Þegar breytur eru notaðar með tölum og táknum eins og kallast það stæða.
Breytur flokkaðar eftir tegund gilda sem þær taka
[breyta | breyta frumkóða]- Fallsbreyta er ílag falls og vísar til staks í formengi fallsins. Myndmengi inniheldur frálag fallsins og ef fall er gagntækt er fyrir sérhvert stak í varpmenginu til eitt og aðeins eitt stak í formengi fallsins.
- Færibreyta er notuð í forritunarmáli.
- Nafnbreyta tekur aðeins eigindleg gildi en ekki megindleg (það er töluleg) gildi. Ekkert gildi er því meira eða minna en nokkurt annað. Dæmi um slíka breytu er breytan Stjórnmálaflokkur sem gæti til að mynda tekið gildin Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkurinn, Frjálslyndi flokkurinn, Samfylking og Vinstri hreyfingin grænt framboð.
- Raðbreyta tekur gildi sem hægt er að raða í röð eftir stærð, en bilið á milli gilda er ekki skilgreint. Dæmi um raðbreytu er breytan sæti í fegurðarsamkeppni, sem tekur gildin fyrsta sæti, annað sæti og svo framvegis. Breytan er raðbreyta því hún gefur upplýsingar um hvort tiltekinn keppandi sé fegurri en annar, en segir ekki hversu MIKIÐ fegurri hann er.
- Jafnbilabreyta tekur megindleg gildi þar sem jafnt bil er á milli eininga. Jafnbilabreyta hefur þó ekki eiginlegan núllpunkt og því er merkingarlaust að reikna hlutfall gilda breytunnar. Dæmi um slíka breytu er hiti á Celsíuskvarða því jafnmikill hitamunur er til að mynda á milli 0 og 100 gráða og á milli 100 og 200 gráða. Celsíus-kvarðinn hefur aftur á móti ekki eiginlegan núllpunkt (því hægt er að fara niður fyrir núllpunktinn og yfir í mínusgráður).
- Hlutfallsbreyta tekur gildi sem jafnt bil er á milli en ólíkt jafnbilabreytu hafa gildi hlutfallsbreytu eiginlegan núllpunkt. Því er hægt að tala um hlutfall tveggja gilda breytunnar. Dæmi um slíka breytu er lengd. Gildi lengdar fara frá núlli og upp, en lengd getur ekki tekið neikvæð gildi. Lengd er hlutfallsbreyta því hlutfall tveggja gilda sem hún getur tekið hefur merkingu. Til að mynda er hægt að segja að hlutfallið 2 cm / 4 cm sé 0,5 eða að 2 cm séu helmingurinn af 4 cm.
Breytur flokkaðar eftir orsakatengslum
[breyta | breyta frumkóða]- Frumbreyta er sú breyta sem talin er hafa áhrif á aðra breytu. Hún er oft táknuð með gildinu X.
- Fylgibreyta er sú breyta sem aðrar breytur hafa áhrif á. Hún er oft táknuð með gildinu Y.
- Þriðja breyta eða samsláttarbreyta er sú breyta sem hefur áhrif á samband frumbreytu og fylgibreytu eða mælingar á því. Hún er oft táknuð með gildinu Z. Í rannsóknum er reynt að hafa stjórn á slíkum breytum svo hægt sé að kanna tengsl á milli X og Y án truflandi áhrifa hennar.