Manuel Varela
Manuel Varela (f. 1891 eða 1892 – d. 1927) var úrúgvæskur knattspyrnumaður.
Líf og keppnisferill
[breyta | breyta frumkóða]Manuel Varela hafði viðurnefnið Japaninn og lék alla tíð sem varnarmaður. Hann var í herbúðum Peñarol frá 1914. Þann 11. nóvember árið 1917 mættust Peñarol og Nacional í úrslitaleik um úrúgvæska meistaratitilinn. Nacional hafði betur og tryggði sér bikarinn til eignar. Gríðarlegur tilfinningahiti var í kringum leikinn, sem lagði að mörgu leyti grunninn að fjandskap liðanna tveggja. Varela var ásamt félögum sínum José Pérez og José Piendibene sakaður um að hafa þegið mútur til að hafa áhrif á úrslitin. Hinir tveir héldu áfram að leika fyrir Peñarol og voru því fljótlega teknir aftur í sátt, en Varela yfirgaf félagið snemma á árinu 1918. Árið eftir gekk hann til liðs við Nacional og varð einn fárra manna til að leika fyrir bæði félög, sem bakaði honum litlar vinsældir hjá stuðningsmönnum síns gamla liðs.
Varela var ekki í veigamiklu hlutverki hjá Nacional en varð þó úrúgvæskur meistari fimm sinnum á árunum 1919 til 1924 auk þess sem hann tók þátt í mikilli keppnisferð félagsins til Evrópu árið 1925 en í kjölfarið lagði hann skóna á hilluna.
Landsliðsferill Varela stóð frá 1915 til 1924. Hann lék alls átján landsleiki og skoraði ekkert mark, ef frá er talið sjálfsmark gegn Argentínu í Suður-Ameríkukeppninni 1919. Hann varð Suður-Ameríkumeistari með Úrúgvæ í tvö fyrstu skiptin sem keppnin var haldin, 1916 og 1917. Í seinna skiptið þurfti Varela að leika í marki síðustu tuttugu mínúturnar í úrslitaleiknum eftir að Cayetano Saporiti fór meiddur að velli.
Varela lést árið 1927, einungis 35 ára að aldri.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Fyrirmynd greinarinnar var „Manuel Varela“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt 24. mars 2024.