Fara í innihald

Sisimiut

Hnit: 66°55′N 53°40′V / 66.917°N 53.667°V / 66.917; -53.667
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

66°55′N 53°40′V / 66.917°N 53.667°V / 66.917; -53.667 Sisimiut (á dönsku Holsteinsborg) er næststærsti bær á Grænlandi með um 5600 íbúa (2015). Bærinn er á vesturströndinni um 100 km norðan við heimskautsbaug. Sisimiut er aðalbyggð í sveitarfélaginu Qeqqata. Bæjarstæðið er á allmiklum tanga, eins og flestir bæir á Grænlandi, en fjallið Nasaasaaq, 784 m hátt, nær þvert yfir tangann.

Sisimiut er nyrsta höfn á Grænlandi sem ísalög hamla ekki siglingum til á veturna.

Elstu minjar um mannlíf í Sisimiut eru frá 2500 f. Kr. og koma frá svo nefndu Saqqaq-fólki. Fundist hafa minjar um flestöll menningarskeið á Grænlandi á svæðinu, Saqqaq, Dorset I og II og einnig Thule-inuíta. Þar að auki má gera ráð fyrir að norrænir menn á miðöldum hafi stundað veiðiskap þar þótt engar minjar hafi fundist um það. Alltaf hefur verið mikið um hval, sel og rostung í hafinu við Sisimiut og þar hefur því verið tilvalið veiðisvæði. Þar eru einnig hreindýr, þó þau hafi aldrei verið jafn algeng og sunnar í landinu. Sauðnaut voru hins vegar flutt inn upp úr 1980 frá Kanada og hafa dafnað vel. Jökulbreiðurnar milli Qaanaaq og Upernavik hindruðu að sauðnautin gætu numið land á vesturströnd landsins án hjálpar.

Götumynd frá Sisimiut 1980

Hvalveiðimenn, aðallega frá Skotlandi og Hollandi, hófu veiðar á hval á Sisimiut-svæðinu í lok 15. aldar. Evrópumenn stunduðu einnig talsverða vöruskiptaverslun við Inuíta, í skiptum fyrir perlur, nálar, garn og ofnar voðir fengu þeir skinn og spik. Árið 1724 gerði Hans Egede tilraun til að setja upp verslunar- og trúboðsstöð í Sisimiut en hollenskir hvalveiðimenn brenndu staðinn í tvígang þar sem þeir álitu sig eina hafa rétt til hvalveiða og verslunar á svæðinu. Það var ekki fyrr en 1764 sem Dönum tókst að koma sér upp bækistöð sem þeir nefndu Holsteinsborg. Bærinn var miðstöð hvalveiða fram í lok 19. aldar. Uppfrá því tók fiskveiði og fiskverkun við sem aðalatvinnuvegur. Togarar og minni bátar landa rækju, þorsk, lúðu og skarkola.

Sisimiut er syðsti bær á Grænlandi þar sem hundasleðar eru notaðir. Gelt hundanna setur svip á bæinn og þá má sjá um allt. Hundasleðarnir eru notaðir bæði í atvinnuskyni og til skemmtunar. Engin vegtenging er við aðra staði.