Agnes af Meraníu
Agnes af Meraníu (d. í júlí 1201), fullu nafni Agnes María af Andechs-Meraníu var evrópsk hefðarkona á 12. öld og kallaðist drottning Frakklands frá 1196 til 1200. Hún var þó ekki drottning með réttu því maður hennar, Filippus 2., var kvæntur fyrir og páfi neitaði að viðurkenna ógildingu hjónabandsins.
Agnes var dóttir Bertholds 4., greifa af Andechs í Bæjaralandi og síðar hertoga af Meraníu í Istríu (Dalmatíu). Móðir hennar hét Agnes af Rochlitz. Heiðveig systir hennar giftist Hinrik 1., hertoga af Slésíu og var tekin í helgra manna tölu árið 1267. Önnur systir hennar, Geirþrúður, giftist Andrési 2. Ungverjalandskonungi og var móðir heilagrar Elísabetar af Ungverjalandi.
Filippus 2. Frakkakonungur hafði gifst Ingibjörgu, dóttur Valdimars mikla Danakonungs, árið 1193 en fór þegar daginn eftir brúðkaupið að reyna að losa sig við hana og fékk franska biskupa til að lýsa hjónabandið ógilt. Ingibjörg leitaði til páfa, sem neitaði að viðurkenna ógildinguna og skipaði Filippusi að taka Ingibjörgu til sín aftur. Hann lét fyrirmælin sem vind um eyru þjóta og giftist Agnesi 7. maí 1196. Hann hafði raunar ætlað að giftast Margréti af Genf en þegar hún var á leið til brúðkaups í París rændi Tómas 1. af Savoja henni og giftist henni sjálfur.
Filippus fékk hvað eftir annað fyrirmæli frá páfa um að sendi Agnesi frá sér og taka Ingibjörgu til sín að nýju en hlýddi þeim ekki þótt páfi bannfærði hann. Það var ekki fyrr en Innósentíus III hafði sett allt Frakkland í bann árið 1199 sem Filippus lét undan. Hann sendi Agnesi frá sér árið 1200 en tók þó ekki Ingibjörgu til sín, heldur hélt henni áfram í stofufangelsi við þröngan kost.
Agnes settist að í Poissy-kastala, um 25 km frá París, og dó þar sumarið 1201, að sögn úr hjartasorg. Hún hafði átt tvö börn með Filippusi og fékk hann því framgengt árið 1201 að páfi úrskurðaði þau skilgetin þótt hjónaband foreldranna væri ógilt.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Fyrirmynd greinarinnar var „Agnes of Merania“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 8. október 2010.