Daniel Noboa
Daniel Noboa | |
---|---|
Forseti Ekvador | |
Núverandi | |
Tók við embætti 23. nóvember 2023 | |
Varaforseti | Verónica Abad Rojas |
Forveri | Guillermo Lasso |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 30. nóvember 1987 Guayaquil, Ekvador |
Þjóðerni | Ekvadorskur |
Stjórnmálaflokkur | Acción Democrática Nacional |
Maki | Gabriela Goldbaum (g. 2018; sk. 2021) Lavinia Valbonesi (g. 2021) |
Börn | 2 |
Háskóli | New York-háskóli (BBA) Northwestern-háskóli (MBA) Harvard-háskóli (MPA) George Washington-háskóli (MA) |
Daniel Roy Gilchrist Noboa Azín (f. 30. nóvember 1987) er ekvadorskur viðskiptamaður og stjórnmálamaður sem er núverandi forseti Ekvador.
Daniel Noboa er sonur Álvaro Noboa, sem er ríkasti maður Ekvador og eigandi bananaræktar- og útflutningsveldis í landinu. Álvaro Noboa hefur sjálfur boðið sig fimm sinnum fram til forseta án árangurs.[1]
Daniel Noboa tilkynnti í ágúst 2023 að hann hygðist gefa kost á sér í forsetakosningum Ekvador í október sama ár. Noboa lagði áherslu á að fjölga störfum og lagði til skattaafslætti fyrir ný fyrirtæki og að hvetja erlenda fjárfesta til landsins. Hann lagði jafnframt áherslu á að ráða bót á glæpafaraldri í Ekvador og stakk upp á því að koma verstu glæpamönnum landsins fyrir á bátum úti fyrir ströndum landsins. Þá talaði hann fyrir því að hernaðarviðvera við landamæri og strendur Ekvador yrði aukin til þess að hindra fíkniefnasmygl.[2]
Noboa náði miklu fylgi meðal ungra kjósenda, sem eru um þriðjungur kjörgengra landsmanna.[2] Þann 16. október 2023 vann Noboa sigur í seinni umferð forsetakosningnana með um 52,29 prósentum atkvæða gegn Luisu González, sem hlaut 47,71 prósent. Við embættistöku sína varð Noboa yngsti forseti í sögu landsins. Vegna þess hvernig efnt var til kosninganna mun Noboa þó aðeins gegna forsetaembættinu í sextán mánuði, sem eru eftirstöðvar kjörtímabils fráfarandi forsetans Guillermo Lasso.[3]
Noboa lýsti yfir neyðarástandi í Ekvador í kjölfar ofbeldisöldu þann 10. janúar 2024. Skotbardagar höfðu þá brotist út víða um landið og vopnaðir menn höfðu tekið starfsfólk sjónvarpsstöðvar í gíslingu í miðri sjónvarpsútsendingu.[4]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Kjartan Kjartansson (21. ágúst 2023). „Bananaerfingi og bandamaður spillts forseta í aðra umferð“. Vísir. Sótt 24. október 2023.
- ↑ 2,0 2,1 Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir (16. október 2023). „Bananaprins kjörinn forseti í Ekvador“. Vísir. Sótt 21. október 2023.
- ↑ Hugrún Hannesdóttir Diego (16. október 2023). „Daniel Noboa kjörinn forseti Ekvador“. RÚV. Sótt 21. október 2023.
- ↑ Samúel Karl Ólason (10. janúar 2024). „Óöld í Ekvador“. Vísir. Sótt 10. janúar 2024.
Fyrirrennari: Guillermo Lasso |
|
Eftirmaður: Enn í embætti |