Ebrahim Raisi
Ebrahim Raisi ابراهیم رئیسی | |
---|---|
Forseti Írans | |
Í embætti 3. ágúst 2021 – 19. maí 2024 | |
Þjóðhöfðingi | Ali Khamenei |
Forveri | Hassan Rouhani |
Eftirmaður | Mohammad Mokhber (starfandi) |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 14. desember 1960 Mashhad, Íran |
Látinn | 19. maí 2024 (63 ára) Varzaqan, Íran |
Þjóðerni | Íranskur |
Maki | Jamileh Alamolhoda |
Börn | 2 |
Háskóli | Shahid Motahari-háskóli[1] Qom-klerkaskólinn[1] |
Undirskrift |
Sayyid Ebrahim Raisol-Sadati (persneska: سید ابراهیم رئیسالساداتی; 14. desember 1960 – 19. maí 2024) var íranskur íhaldssamur stjórnmálamaður og dómari sem var forseti Írans frá 2021 til 2024. Hann var kjörinn í forsetakosningum árið 2021 og tók við af Hassan Rouhani í embættinu þann 3. ágúst.
Sem dómari var Raisi bendlaður við aftökur á pólitískum föngum á níunda áratuginum. Talið er að hann hafi ásamt þremur öðrum dómurum skipað um 5.000 aftökur.[2] Raisi sætti persónulegum efnahagslegum refsiaðgerðum af hálfu Bandaríkjanna vegna ábyrgðar hans á aftökunum. Andstæðingar hans gáfu honum viðurnefnið „slátrarinn frá Teheran“.[3]
Raisi var tryggur stuðningsmaður Ali Khamenei, æðstaklerks Írans, og var nefndur sem hugsanlegur arftaki hans.[2] Raisi bauð sig fram til forseta árið 2017 en tapaði fyrir sitjandi forsetanum Hassan Rouhani, sem var talinn ívið hófsamari og umbótasinnaðari. Raisi hlaut um 38% atkvæðanna á móti 57% sem Rouhani hlaut.[4] Eftir ósigur sinn í kosningunum var Raisi útnefndur forseti íranska hæstaréttarins.[2]
Raisi bauð sig aftur fram til forseta árið 2021. Í kosningunum hafnaði verndararáð Írans miklum meirihluta umsókna um forsetaframboð og því álitu margir að ríkisstjórnin hefði í reynd búið svo um hnútana að Raisi myndi vinna. Margir frjálslyndir Íranir sniðgengu kosningarnar í mótmælaskyni. Kjörsókn í kosningunum var mjög léleg en Raisi vann sigur með rúmum helmingi greiddra atkvæða.[5]
Frá því að Raisi tók við völdum í Íran var hert á reglum sem skylda íranskar konur til að klæðast hijab-slæðum og siðgæðislögregla ríkisins fékk auknar heimildir til að láta framfylgja reglunum.[6] Þann 16. september 2022 hófust fjöldamótmæli gegn írönskum stjórnvöldum eftir að kúrdísk kona að nafni Jina Amini lést í haldi siðgæðislögreglunnar, sem hafði handtekið hana og misþyrmt henni vegna meints brots hennar gegn reglum um klæðaburð. Í ávarpi sem Raisi flutti þann 28. september sagði hann að öll þjóðin væri sorgmædd vegna andláts Jinu Amini en að stjórn hans gæti ekki leyft fólki að „trufla frið samfélagsins með óeirðum“. Í skjali sem lekið var til Amnesty International kom fram að yfirstjórn öryggissveita í Teheran hefði sent fyrirmæli til öryggissveita um allt landið þann 21. september um að tekið skyldi á mótmælendum með hörku.[7]
Raisi lést í þyrluslysi þann 19. maí árið 2024. Þyrla hans nauðlenti vegna slæmra veðurskilyrða í norðvesturhluta Írans á leið til borgarinnar Tabriz eftir heimsókn Raisi til Aserbaísjans. Utanríkisráðherrann Hossein Amirabdollahian lést einnig í slysinu.[8]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ 1,0 1,1 „زندگینامه حجتالاسلام و المسلمین سیدابراهیم رئیسی“ (persneska). Opinber heimasíða Ebrahim Raisi. Afrit af uppruna á 23. mars 2017. Sótt 5. apríl 2017.
- ↑ 2,0 2,1 2,2 Lovísa Arnardóttir (18. júní 2021). „Raisi næsti forseti í Íran“. Fréttablaðið. Afrit af upprunalegu geymt þann 22. maí 2022. Sótt 21. júní 2021.
- ↑ Markús Þ. Þórhallsson (20. júní 2021). „Ísraelar lýsa áhyggjum af kjöri Raisi sem forseta“. RÚV. Sótt 21. júní 2021.
- ↑ Oddur Stefánsson (26. maí 2017). „Endurkjör Rouhani og opnun Íran“. Kjarninn. Sótt 21. júní 2021.
- ↑ Árni Sæberg (19. júní 2021). „Raisi sigurvegari í Íran“. Vísir. Sótt 21. júní 2021.
- ↑ Bjarni Pétur Jónsson (2. október 2022). „„Ef lífið verður svona þá er ég tilbúin til að deyja"“. RÚV. Sótt 11. október 2022.
- ↑ Erla María Markúsdóttir (1. október 2022). „Kona, líf, frelsi“. Kjarninn. Sótt 11. október 2022.
- ↑ „Forsetinn og utanríkisráðherrann látnir“. mbl.is. 20. maí 2024. Sótt 20. maí 2024.
Fyrirrennari: Hassan Rouhani |
|
Eftirmaður: Mohammad Mokhber (starfandi) |