Fara í innihald

Harriet Beecher Stowe

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Harriet Beecher Stowe
Fædd14. júní 1811
Dáin1. júlí 1896 (85 ára)
Hartford, Connecticut, Bandaríkjunum
StörfRithöfundur
Þekkt fyrirAð semja Kofa Tómasar frænda
MakiCalvin Ellis Stowe
Börn7
ForeldrarLyman Beecher & Roxana Foote
Undirskrift

Harriet Elisabeth Beecher Stowe (14. júní 1811 – 1. júlí 1896) var bandarískur rithöfundur og baráttukona fyrir afnámi þrælahalds. Stowe var af frægri og trúrækinni ætt, Beecher-ættinni. Hún er þekktust fyrir skáldsöguna Kofa Tómasar frænda (Uncle Tom's Cabin; 1852), þar sem Beecher Stowe skrifaði um harkalega meðferð og bága lifnaðarhætti svartra þræla í Bandaríkjunum. Bókin seldist í milljónum eintaka bæði sem skáldsaga og sem leikrit og hafði mikil áhrif í Bandaríkjunum og Bretlandi. Skáldsagan jók stuðning í norðurhluta Bandaríkjanna við afnámi þrælahalds en reitti þrælaeigendur í suðurhluta Bandaríkjanna mjög til reiði. Stowe samdi 30 bækur á ævi sinni, þar á meðal skáldsögur, þrjár ferðasögur og nokkur greina- og bréfasöfn. Hún naut mikilla áhrifa á sínum tíma bæði vegna ritverka sinna og skoðana um samfélagsmál.

Harriet Beecher var sjötta í röð ellefu barna[1] kalvíniska prestsins Lymans Beecher og konu hans, Roxönu Foote og hlaut hjá þeim stranga, kristilega menntun. Móðir hennar lést þegar hún var fimm ára. Einn af bræðrum Harriet var presturinn Henry Ward Beecher, sem var hatrammur andstæðingur þrælahalds og vann að því að senda baráttumönnum gegn þrælahaldi skotvopn sem fengu gælunafnið „biblíur Beechers“. Árið 1832 stofnaði faðir Harriet skóla í Cincinnati í Ohio og Harriet gerðist þar kennari. Hún hóf að skrifa bókina Sketches of Scenes and Characters Among the Descendants of the Pilgrims um púritanska landnema sem fluttu til Norður-Ameríku í kringum 1620, sem hún birti árið 1843 undir titlinum The Mayflower.

Árið 1836 giftist Harriet prestinum Calvin Stowe og vann með honum í baráttunni gegn þrælahaldi. Hjónin neyddust til að flytja burt frá Cincinnati til Brunswick í Maine vegna óvinsælla og opinskárra skoðana sinna um þrælahald. Um þetta leyti samdi Stowe bókina Kofa Tómasar frænda, sem varð strax metsölubók þegar hún kom út árið 1852 og gróf mjög undan stuðningi við þrælahald.

Eftir útgáfu bókarinnar tók Stowe ekki mjög virkan þátt í starfsemi baráttumanna gegn þrælahaldi en þó vann hún sér inn virðingu og vinskap margra frægra afnámssinna, þar á meðal Williams Lloyd Garrison.[2] Eftir að Þrælastríðið hófst fór Stowe til Washington og átti fund með Abraham Lincoln Bandaríkjaforseta. Sagt er að Lincoln hafi í kímni sagt við Stowe: „Svo þú ert litla konan sem samdi bókina sem byrjaði þetta mikla stríð!“[3]

Stowe samdi ýmsar aðrar bækur á ferli sínum, þar á meðal Dred: A Tale of the Great Dismal Swamp árið 1856. Aðrar bækur hennar nutu ekki eins mikilla vinsælda og hún er því enn þekktust fyrir Kofa Tómasar frænda, sem naut mikilla vinsælda bæði í Ameríku og Evrópu og var þýdd á mörg tungumál.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Joan Hedrick : Harriet Beecher Stowe: a Life. Oxford University Press (1994), bls. 6, [1]
  2. Meyer, Henry. All on Fire; William Lloyd Garriosn and the abolition of slavery. New York; Norton and company Inc. 2008, pp. 421-422.
  3. David B. Sachsman; S. Kittrell Rushing; Roy Morris (2007). Memory and Myth: The Civil War in Fiction and Film from Uncle Tom's Cabin to Cold Mountain. Purdue University Press. bls. 8.