Fara í innihald

Hestur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Hestur

Ástand stofns
Húsdýr
Vísindaleg flokkun
Ríki: Dýraríkið (Animalia)
Fylking: Seildýr (Chordate)
Flokkur: Spendýr (Mammalia)
Ættbálkur: Hófdýr (Perissodactyla)
Ætt: Hestar (Equidae)
Ættkvísl: Hestaættkvísl (Equus)
Tegund:
E. caballus

Tvínefni
Equus caballus
Linnaeus, 1758

Hestur (fræðiheiti: Equus caballus) er tegund stórra spendýra af ættbálki hófdýra og eitt af sjö eftirlifandi tegundum af Equus-ættkvíslinni. Hestar hafa skipt miklu máli í mótun samgangna og vinnutækja í heiminum. Talið er að hestur nútímans hafi verið fyrst notaður til að auðvelda manninum vinnu sína um 2000 f. Kr. Í dag er hesturinn meira notaður sem húsdýr og tómstundagaman en í þriðja heiminum er hann enn mikið notaður við ýmis störf, sérstaklega í landbúnaði.

Íslenski hesturinn er smærri en mörg önnur hestakyn.

Lífeðlisfræði

[breyta | breyta frumkóða]

Líffæra- og lífeðlisfræði hestsins eru mjög lík eða eins milli tegunda. Þó eru til frávik s.s. í arabíska gæðingnum sem hefur færri hryggjarliði en aðrar tegundir. Stærð tegundanna er mjög breytileg sem og atferli og búsvæði.

Lífaldur hests fer eftir kyni (tegund), umhverfi og erfðum. Í dag lifa hestar gjarnan til 25 til 30 ára aldurs en hestar í villtum stóðum lifa gjarnan styttra enda kljást þeir þar við náttúrulegt val. Elsti hesturinn er talinn hafa verið „Old Billy“ sem lifði til 62 ára aldurs.[1]

Stærðarmunur á hrossakynjum

Hrossakynjum er skipt í tvo flokka eftir stærð; smáhesta og hesta. Hæðin er mæld á herðakambi og smáhestar kallast þeir hestar sem ná ekki 147 cm hæð. Skiptingin er þó ekki algild og er t.d. umdeilt hvort íslenski hesturinn sé hestur eða smáhestur. Þannig þarf einnig að fylgja byggingu og getu hesta til að ákvarða í hvorn flokkinn þeir falla í.

Minnsta viðurkennda hrossategundin í heiminum er Falabella en stærsta er Skírir (e. Shire). Stærsti einstaklingurinn var Sampson, síðar Mammoth, af Skíriskyni, sem náði 2.20 m hæð. Minnsti einstaklingurinn var Thumbelina (íslenska:Þumalína) sem þjáist af vaxtarstöðnun. Hún er 43 cm há á herðakamb.[2]

Mustanghestar í Utah

Hesturinn er hóp- og flóttadýr og hefur alla tíð verið veiddur af rándýrum. Eðli hans er því að flýja frá öllum hættum og þeir halda sig saman í hóp sem kallast stóð. Ef engin er undankomuleiðin snúa hestar sér til árásar eða varnar. Hross halda sig saman í hóp og eru nokkuð föst á það að fylgja stóðinu eða leiðtoganum en hestar hafa mikla hvöt til að velja sér leiðtoga. Þetta getur maðurinn nýtt sér við tamningar og þjálfun hestsins. Hestar hafa samskipti hver við annan með líkamstjáningu og hneggi.

Stóðlífið

[breyta | breyta frumkóða]

Stóðið samanstendur af stóðhesti og stóðmerum auk afkvæma. Oft eru yngri graðhestar með í hópnum sem slást um tign í goggunarröðinni. Oftast er það elsta merin sem stjórnar hópnum í leit að fæðu og skjóli. Hún þekkist af því að hún lætur flest hrossin éta á undan sér, ef lítið er um mat, en nýtur samt mestu virðingar allra hrossanna í stóðinu. Hún fer fyrir hópnum og velur bestu og öruggustu leiðina milli beitarsvæða.

Þegar hrossahópar eða stóð hvílast eru jafnan 1 til 2 sem standa og „halda vörð“ fyrir rándýrum. Hestar geta sofið standandi en gera það yfirleitt ekki nema á daginn, þá í stutta stund í einu. Á næturnar sofa þeir liggjandi. Hestur í afslöppun hvílir gjarnan aðra afturlöppina og neðri flipinn hangir slakur. Auk þess eru augun lokuð og hesturinn virðist sofa.

Folöld fæðast venjulega á vorin eftir 336 daga langa meðgöngu og kallast það að merin kasti. Folöldin kallast merfolald og hestfolald eftir kynjum. Fleirburar eru sjaldgæfir, en þó koma tvíburar fyrir. Merar eru þeim eiginleikum gæddar að geta gengið lengur með folaldið ef hart er í ári og gengið þá allt að 365 daga meðgöngu. Þetta er algengt á kaldari svæðum, svo sem á Íslandi, vegna þess hve vorhret eru algeng.

Prezewalski-hestur í Mongólíu

Elstu vísbendingar um að hesturinn hafi komið frá Mið-Asíu eru frá því um 4.000 f. Kr. en talið er að hófdýr hafi þróast fyrir um 10 milljón árum síðan, eftir að risaeðlurnar dóu út. Þau voru helstu spendýrin fram á míósen-tímabilið þegar klaufdýr þróuðust til að nýta grasfæðu betur en þau höfðu áður gert.

Hesturinn þróaðist frá því að vera með 5 tær (klaufir) niður í 4, 3 og loks eina tá á míósen. Hestar með fleiri tær lifðu í deiglendara landi og sukku því ekki í blautan jarðveginn. Einnig breyttist fæða hestsins og hætti hann að vera laufæta í skógum og kjarri og fór að éta gras á sléttum meginlandanna. Fæðan varð trénismeiri og því þróaðist meltingarkerfið svo það gæti tekið við grófara æti. Á pleistósen stækkaði hesturinn til muna og missti 2. og 4. tána ásamt því að hann leitaði frekar út á gresjurnar í fæðuleit. Hliðartærnar minnkuðu hjá Hipparion og eina sem eftir lifir af þeim eru griffilbeinin sem nútímahestar nota ekki, en eru þó til staðar.

Hollenskur dráttarhestur

Hestar eru hafðir til margs konar nota, hvort sem það er sem tómstundagaman, til vinnu eða afurða. Hestar voru helstu vopn herja fyrir iðnbyltinguna og eru einnig notaðir til sjúkraþjálfunar og í ýmsum meðferðum.

Tómstundagaman

[breyta | breyta frumkóða]

Hestar eru notaðir til útreiða og sem félagar manna og annarra dýra, s.s. nautgripa og asna. Útreiðar í náttúrunni eru stundaðar um allan heim, hvort sem það er útúrdúr fyrir keppnishesta eða fyrir hinn almenna reiðmann.

Hestar eru einnig notuð í íþróttum

Keppt er í ýmsum flokkum og gerðum keppna. Helstu keppnirnar eru hindrunarstökk, fimi og veðhlaup. Bandarískar búgreinakeppnir á borð við „tunnuhlaup“ og „fánareið“ eru vinsælar vestanhafs og hin besta skemmtun fyrir áhorfendur. Á íslenska hestinum er keppt í gangtegundum, A- og B-flokki og tölti auk skeið-spretta. Þolreið er einnig vinsæl.

Lögregluþjónn á hesti í Poznań í Póllandi

Margar atvinnugreinar vinna við eða nota hesta við vinnu sína. Ef frátaldir eru tamningamenn, þjálfarar og dýralæknar nota margar lögregludeildir hesta við störf sín. Bændur og skógarhöggsmenn um allan heim hafa notað hesta til dráttar og gera enn. Í þróunarríkjum eru hestar enn mikið notaðir þó að dregið hafi úr notkun þeirra í atvinnulífi iðnríkjanna.

Afurðir hrossa eru kjöt, kaplamjólk, skinn og húðir. Kaplamjólk og blóð hrossa er notað við matargerð í Mongólíu. Blóð úr fylfullum hryssum og fylsugum (þeir hryssur sem hafa folald á spena) er notað í frjósemislyf innan búfjárræktar. Hrosshár, þ.e. taglhár, eru notuð í fiðluboga og boga á öðrum álíka hljóðfærum. Hyrni hófanna er notað til gerðar á hóflími, til að laga sprungur og holur í hófum lifandi hrossa. Skinn og húðir eru nýttar í klæði og efni.

Orðaforði

[breyta | breyta frumkóða]

Gangtegundir

[breyta | breyta frumkóða]
  • Fet er fjórtakta gangtegund, sú hægasta. Fluttur er ein fótur í einu, byrjað á öðrum hvorum afturfæti, síðan framfæti sömu hliðar, næst afturfæti hinnar hliðar hestsins og loks sá framfótur sem ekki hefur hreyfst. Gott fet felst í því að afturfætur stígi í eða vel framfyrir spor framfótar.
  • Brokk er tvítakta gangtegund með svifi, þ.e. tveir skástæðir fætur (t.d. vinstri aftur og hægri fram) fylgjast að og stíga samtímis í jörðina. Brokk getur verið bæði róleg og ferðarmikið. Að stíga brokkið kallast það þegar knapinn rís upp úr hnakknum í takt við hestinn, situr og stígur sitt á hvað. Þetta er gert t.d. ef hesturinn er mjög hastur eða til að hjálpa hestinum með að halda jafnvægi og takti á brokkinu.
Hestur á stökki
  • Stökk er þrítakta gangtegund. Fyrst stígur í jörðina annar afturfótur, svo samtímis hinn afturfóturinn og skástæður framfótur og loks samstæður framfótur (t.d. hægri aftur, vinstri aftur og hægri fram og loks vinstri fram). Sá framfótur sem teygir sig lengra fram (lendir seinastur í jörðinni) er sá sem leiðir stökkið og kallast stökkið hægra- eða vinstrastökk eftir því. Þegar riðið er á hring, ferning eða sporbaug er innri fótur alltaf sá sem teygir sig framar.

Eftirfarandi eru gangtegundir sem ekki öll hestakyn hafa:

  • Tölt (sjá sérgrein)
  • Skeið (sjá sérgrein)
  • Corto, largo, fino eru gangtegundir perúska Paso Fino-hestsins. Corto líkist mest brokki hvað hraða varðar, largo er framgripsmeira og hraðara og fino er samansafnað, þ.e. hesturinn teygir afturfæturnar vel innundir búkinn.

Aldur og kyn

[breyta | breyta frumkóða]
  • folald er afkvæmi hests. Folald er unghestur undir eins árs aldri.
  • geldingur er vanaður hestur.
  • graðhestur (einnig nefndur sönghestur) óvanaður hestur, stóðhestur.
  • meri kvenkyns hestur, fullorðinn.
  • tryppi er unghestur, 1-4 vetra, þó mismunandi eftir tegundum. Tryppin öðlast hestsheitið þegar þau hafa verið tamin og eru þroskuð bæði líkamlega og andlega.
  • vetrungur ársgamall hestur. Orðið er óháð kyni.

Líkamsbygging

[breyta | breyta frumkóða]
  • aurhorn (einnig nefnt hófþorn, vaðhorn eða saurhorn) er hornkörtur á innanverðum framfótum hesta.
  • bógur er á framparti hestsins, á báðum hliðum. Hann er upp af framfæti og neðan hálsins.
  • fax og toppur sítt og gróft hár á hálsi og enni hestsins.
  • herðakambur er hæsti punktur á baki hestins. Hann er notaður þegar hæð hestsins er mæld með stangarmáli.
  • herðatoppur er aftasti hluti faxins.
  • hófur er neðsti hluti allra fóta. Hann er gerður úr hyrni og vex eins og neglur á mönnum.Hófurinn er úr mjúku efni og slitnar á hörðu undirlagi ef hesturinn er ekki járnaður. Sjá sérgrein fyrir frekari upplýsingar.
  • hækill er liðmót á afturfótum, milli læris og fótleggs.
  • kjúka er liðamót á öllum fótum, neðstu liðamótin. Aftan á þeim er hárbrúskur sem kallast hófskegg. Kjúkan deyfir högg upp í fótinn og spyrnir þegar hesturinn gengur.
  • konungsnef er hækilbeinið á afturfæti.
  • lend er ofan á afturparti hestsins, hæsti hluti yfir afturfótunum. Þar eru miklir vöðvar sem drífa hestinn áfram þegar hann hleypur, sérstaklega á íslenska hestinum sem notar afturpartinn mjög mikið.
  • tagl er sítt hár sem samsvarar faxinu er á enda rófubeinsins.
Grádoppóttur Knabstruphestur
Jarpskjótt-, blesóttur hestur
  • brúnn/svartur: ekki eru menn á eitt sáttir um það hvort hross séu svört eða ekki. Brún hross eru brún á búk með brúnt fax og tagl. Bæði fax og búkur geta upplitast af sól. Svört hross hins vegar eru tinnusvört og upplitast ekki.
  • grár gráir hestar fæðast í grunnlitum en lýsast svo með aldrinum vegna erfðaeiginleika. Mjög dökk-gráir hestar með hringamynstur kallast stein- eða apalgráir en mjög ljósir, jafnvel alveg hvítir eru ljósgráir.
  • jarpur: jarpt hross er með rauð- eða brúnleitan búk og svart fax og tagl. Búkurinn getur verið annað hvort fagur rauður og kallast liturinn þá rauðjarpur, eða verið brúnn og kallast þá ýmist korgjarpur eða dökkjarpur.
  • leirljós: leirljós hestur er ljós á búk og með samlitt fax eða jafnvel ljósara. Hann hefur gylltan blæ yfir sér.
  • litföróttur: Litförótt lýsir sér þannig að hrossið hefur sinn tiltekna grunnlit en verður árstíðabundið grár því undirhárin eru grá en vindhárin í grunnlit hestsins.
  • moldóttur: Moldóttur hestur er með gul-brúnan búk og svart fax og mön á baki að auki. Mjög dökkir moldóttir hestar kallast draugmoldóttir.
  • móálóttur: Móálóttir hestar eru með silfurgráan búk og svart fax og tagl. Í faxinu getur verið eitthvað um ljós-brún hár.
  • rauður: rauður hestur er með rauðleitan búk, jafnvel mjög ljósan eða dökkan. Ef hesturinn hefur gulleitt fax að auki kallast faxið glófext.
  • skjóttur: Skjóttir litir fyrirfinnast í öllum grunnlitum. Þeir stafa af því að litarefni vantar í frumurnar á þeim skellum sem eru hvítar. Algengast eru rauð- og brúnskjótt hross.

Önnur einkenni

  • blesa er hvít rönd í andliti sem nær frá enni niður á flipa. Sé blesan mjög breið er hesturinn breiðblesóttur og jafnvel glámblesóttur ef hvíti liturinn nær út fyrir augun og augun eru annað hvort blá (hringeygður) eða með vagli.
  • hosa er hvít skella á fæti en nær lengra upp en sokkur, jafnvel upp fyrir hné/hækil.
  • hringeygur hestur hefur blátt auga og hvítan hring í því yst.
  • leisti er stutt hvít skella á fæti, nær ekki upp fyrir kjúku.
  • sokkur er hvít skella neðst á fæti. Sokkur nær upp á miðjan fótlegg.
  • stjarna er hvítur hringur eða stjarna í enni. Bletturinn getur verið ýmist stór eða lítill, reglulegur eða óreglulegur að lögun. Sé mjó rönd niður úr stjörnunni kallast hún halastjarna.
  • tvístjarna er þegar stjarna í enni og önnur á snoppu koma saman. Jafnvel er til þrístjörnótt en það er sjaldgæfara.
  • vagl í auga er lítil hvít skella í auga hests.

Frægir hestar

[breyta | breyta frumkóða]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „The Mane Facts About Horse Health“. Sótt 5. mars 2007.
  2. „„Meet Thumbelina, the World's Smallest Horse" í Daily Mail. Sótt 5. mars 2007.
  • Helgi Sigurðsson dýralæknir. 2001. Hestaheilsa. Eiðfaxi, Reykjavík.
  • Fyrirmynd greinarinnar var „Horse“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 17. október 2005.