Fara í innihald

Lárentíus Kálfsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Lárentíus Kálfsson (10. ágúst 126716. apríl 1331) var biskup Hólum 13241331, eða í 7 ár. Helsta heimildin um ævi hans og störf er Lárentíus saga, sem er almennt talin rituð af Einari Hafliðasyni.

Foreldrar: Kálfur (systursonur Þórarins kagga prests á Völlum í Svarfaðardal), og Þorgríma Einarsdóttir. Þau bjuggu um tíma á Efra-Ási í Hjaltadal.

Lárentíus lærði fyrst hjá Þórarni kagga ömmubróður sínum á Völlum, síðan hjá Jörundi biskupi á Hólum. Vígðist prestur 1288 og var skólameistari á Hólum næstu þrjú ár. Var prestur að Hálsi í Fnjóskadal 1292–1293. Fór síðan að Hólum, hrökklaðist þaðan vegna ágreinings við biskup og fór í Skálholt og tók Árni Þorláksson biskup við honum. Fór til Noregs 1294, var í þjónustu Jörundar erkibiskups næstu ár og tók þá þátt í deilum hans við kórsbræður. Var sendur til Íslands 1307 til eftirlits með kristnihaldi, en var illa tekið. Fór aftur til Noregs 1308, var þá handtekinn af kórsbræðrum í Niðarósi og settur í fangelsi, og sendur aftur til Íslands vorið 1309. Var hann um tíma í Þykkvabæjarklaustri, síðan á Þingeyrum og víðar við kennslu. Sættist við Auðun biskup rauða haustið 1319 og kenndi dóttursonum hans. Við fráfall Auðunar biskups 1322, varð Lárentíus eftirmaður hans sem biskup á Hólum, vígður 1324.

Lárentíus var annálaður fyrir góða fjárgæslu og ölmusumildi. Hann var vel að sér í kirkjulögum og siðavandur, áminnti jafnt háa sem lága, sem létu sér það lynda. Hann stofnsetti m.a. prestaspítala á Kvíabekk í Ólafsfirði. Um hann er Lárentíus saga biskups.

Sonur Lárentíusar, með norskri konu, var Árni Lárentíusson, síðar munkur á Þingeyrum.

  • Páll Eggert Ólason: Íslenskar æviskrár III.
  • Sigurjón Páll Ísaksson: Auðun biskup rauði og timburstofan á Hólum. Um Auðunarstofu, Hólanefnd 2004. Ritstj: Þorsteinn Gunnarsson.
  • Patzuk-Russell, Ryder og Yoav Tirosh. (2024). "Icelandic Hospitals, Clergy, and Disability in the Saga of Bishop Lárentíus". Mirator. 24 (1): 1-17.



Fyrirrennari:
Auðunn rauði
Hólabiskup
(13241331)
Eftirmaður:
Egill Eyjólfsson