Monica Lewinsky
Monica Lewinsky (fædd 23. júlí 1973 í San Francisco, Kaliforníu) var lærlingur í Hvíta húsinu og Pentagon. Hún öðlaðist heimsfrægð þegar upp komst um samband hennar og Bill Clinton, sem þá var forseti Bandaríkjanna. Samband hennar og forsetans komst í sviðsljósið 1998 þegar vinkona Monicu lét Kenneth Starr, saksóknara, fá hljóðupptöku af símtölum þeirra. Fyrir utan fjölmiðlaathyglina leiddi málið til þess að Bill Clinton var ákærður fyrir að hafa logið til um samband sitt við hana. Hann hafði fyrst skýrt frá því í sjónvarpsviðtali að hann hafi ekki átt í sambandi við Monicu með orðunum "I did not have sexual relations with that woman, Miss Lewinsky" en varð seinna að draga það til baka og baðst hann afsökunar í sjónvarpi. Stundum er talað um málið sem Monicagate eða Zippergate með vísan til hneykslismálana Watergate og Irangate.
Seinna gerðist Monica Lewinsky kaupsýslukona og stundar hún í dag viðskipti á netinu. Hún er sálfræðingur að mennt og 2005 hóf hún nám í réttarsálfræði við London School of Economics.
Einkamál
[breyta | breyta frumkóða]Sambandið við Bill Clinton
[breyta | breyta frumkóða]Upp komst um samband Lewinsky og Clinton þegar Paula Corbin Jones, fyrrum starfsmaður Arkansas ríkis, sakaði forsetann um að hafa áreitt sig kynferðislega árið 1991 þegar Clinton var fylkisstjóri Arkansas. Lögfræðingar Jones vildu sýna fram á hegðunarmynstur hjá forsetanum og yfirheyrðu því nokkrar konur sem talið var að hann hefði átt í kynferðissambandi við. Clinton sjálfur var yfirheyrður þann 17. janúar árið 1998, hann neitaði alfarið að hann hefði átt í kynferðissambandi við Lewinsky frá 1995-96. Lewinsky neitaði einnig sambandinu við fyrstu yfirheyrslu. Samstarfskona Lewinsky, Linda R. Tripp, sendi Kenneth Starr, sjálfstæðum saksóknara, upptökur af samtölum hennar við Lewinsky þar sem hún lýsir sambandi sínu við forsetann. Starr hóf rannsókn á málinu með leyfi frá dómsmálaráðherra.
Í mars 1998 hófust vitnaleiðslur fyrir kviðdómi og m.a. var sýnt fram á að forsetinn hefði logið áður um kynferðissamband. Í yfirheyrslunni þann 17. janúar viðurkenndi hann að hafa átt í kynferðissambandi við Gennifer Flowers, skemmtikraft frá Arkansas, á 9. áratugnum en hann hafði áður neitað því.
Í apríl var vísað ákæru Paulu Jones frá og þá hófst Starr handa við að undirbúa formlega ákæru um embættisafglöp á hendur Clinton. Hann veitti Lewinsky friðhelgi til að hún yrði ekki ákærð fyrir meinsæri og Clinton samþykkti að bera vitni fyrir kviðdómi. Þann 17. ágúst gerði hann það og viðurkenndi að hafa átt í kynferðissambandi við Monicu Lewinsky. Eftir vitnisburðinn ávarpaði hann þjóðina í sjónvarpi og viðurkenndi það sama, hann bað einnig um fyrirgefningu. Í september sendi Starr skýrslu til fulltrúadeildar Bandaríkjaþings þar sem hann tók til fjögur hugsanleg tilefni til ákæru fyrir afglöp í starfi; meinsæri, hindrun réttvísinnar, spilling vitna og misnotkun á valdi. Á endanum var Clinton ákærður fyrir meinsæri og hindrun réttvísinnar. Réttarhöldin hófust í janúar 1999 en um mánuði seinna var þeim lokið eftir að öldungadeildin kaus í málinu og hafnaði báðum ákærunum [1][2] [3].
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Clinton’s White House Intern Scandal
- ↑ „A Chronology: Key Moments In The Clinton-Lewinsky Saga“. Afrit af upprunalegu geymt þann 11. október 2010. Sótt 14. október 2010.
- ↑ Lewinsky scandal