Fara í innihald

Pixar

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Pixar Animation Studios
Rekstrarform Hlutafélag
Stofnað 3. febrúar 1986
Staðsetning Emeryville, Kalifornía, Bandaríkin
Lykilpersónur John Lasseter
Starfsemi kvikmyndafyrirtæki, hugbúnaðarfyrirtæki
Vefsíða pixar.com

Pixar fullt nafn Pixar Animation Studios er hugbúnaðar- og kvikmyndafyrirtæki í Emeryville, Kaliforníu. Fyrsta kvikmynd fyrirtækisins Leikfangasaga var útgefin 1995 og hún er fyrsta tölvuteiknaða kvikmynd sögunnar.[1] Síðan þá hafa fimm fyrstu kvikmyndir Pixar skilað 2,5 milljörðum bandaríkjadala í miðasölum kvikmyndahúsa.[2]

Pixar var byggt á grunni tölvudeildar Lucasfilm sem nefndist Graphics Labs. Graphics Labs var Lucasfilm innan handar við gerð Star Wars kvikmyndana og bjó síðar til stuttmyndina André & Wally B. Eftir að fyrirtækið varð sjálfstætt þróaði það hugbúnað á borð við RenderFarm sem er notaður við gerð teiknaðra kvik- og stuttmynda. Við þróun RenderFarm var myndatökuvélin og aðferðir myndatökumannsins teknar til fyrirmyndar. Forritið hermir eftir þeim eiginleika myndatökuvélarinnar að helmingur myndarinnar er skarpur og hinn í þoku, en sá eiginleiki á rætur sínar í lokunarbúnaði myndatökuvélarinnar.[3] Render Farm hefur verið notað í öllum þeim kvikmyndum sem Pixar hefur framleitt en auk þess í kvikmyndum á borð við Hringadróttinssaga: Föruneyti hringsins, Hringadróttinssaga: Tveggja turna tal, Harry Potter og Árásin á Perluhöfn.[4]

1986 gaf Pixar út stuttmyndina Luxo Jr. Aðalpersóna stuttmyndarinnar er lampinn Luxo Jr. sem varð síðar að lukkudýri félagsins sem má oft sjá í einkennismerki þess. Stuttmyndin fékk óskarsverðlaun í teiknimyndaflokki.[5] Ári síðar var gefin út stuttmyndin Red´s Dream og í kjölfarið Tin Toy sem að var í fyrsta skipti sem að hendur og fætur manns sjást í þrívídd. [6] 1989 kom út Fyrsta mynd Pixar sem var að fullu í þrívídd bar nafnið Kick Knack.[3]

Fyrsta kvikmynd Pixar Leikfangasaga kom út 1995 og var dreift af Disney. Á undan kvikmyndinni var sýnd stuttmyndin Tin Toy, sem hafði áður verið framleidd og þetta markaði einnig upphafið af þeirri hefð hjá Pixar að stuttmyndir eru sýndar á undan kvikmyndum félagsins í kvikmyndahúsum. Á sama ári gaf Pixar út skuldabréfaútboð til að fjármagna næstu myndir félagsins.[5]

Þremur árum síðar kom út kvikmyndin Pöddulíf. Samhliða henni var sýnd stuttmyndin Geri´s Game sem hlaut óskarsverðlaun fyrir bestu teiknimyndina.[5] Ári síðar kom út framhaldsmyndin Leikfangasaga 2.

Skrímsli hf. var útgefin 2001 og setti met í miðasölu. Kvikmyndin var fimm ár í framleiðslu og tvö ár tók að þróa forrit fyrirtækisins til þess að feldur skrímslanna gæti komist á hvíta tjaldið.[7] Leitin að Nemo og Hinir ótrúlegu komu út á næstu tveimur árum og kvikmyndin Bílar fylgdi í kjölfarið 2006.

Á milli Disney og Pixar var í gildi samstarfsamningur þar sem Disney fékk greitt 12,5% dreifingargjald og allur kostnaður og ágóði af myndunum var skipt til helminga á milli félagana.[8] Þar að auki hefur Disney rétt til að dreifa sjö kvikmyndum Pixar, fá ágóða af þeim og gera framhaldsmyndir af þeim kvikmyndum, velji Pixar að taka ekki þátt í því verkefni.[9] 2004 var eitt ár var eftir af þessum samningi þegar að ágreiningur myndaðist á milli þáverandi stjórnenda Disney Michael Eisner og Pixar Steve Jobs um samstarfssamninginn. Sá síðarnefndi gerði Disney ljóst að þeirra sé ekki lengur þörf og að "mikið hafi breyst til frambúðar í heimi fjölskylduskemmtunar".[10]

Í framhaldinu byggði Disney kvikmyndaver í Glendale, Kaliforníu sem myndi aðalega framleiða framhaldsmyndir kvikmynda Disney-Pixar. Kvikmyndaverið býr yfir sama tækjabúnaði og aðalteiknimyndaver Disney. Líkur voru á að Disney myndi framleiða Leikfangasögu 3 í þessu kvikmyndaveri sem yrði útgefin 2008.[11]

2006 tilkynnti nýr forseti Disney, Robert Iger, kaup á Pixar fyrir 7,4 milljarða bandaríkjadala. Kaupin voru greidd alfarið með skuldabréfum í Disney. Við kaupin varð Steve Jobs stjórnarmaður í Disney og John Lassiter, einn af stofnendum Pixar, varð yfirmaður Pixar og teiknimynda kvikmyndafyrirtækis Disney ásamt því að vera hugmyndafræðilegur ráðgjafi þemagarða Disney.[1]

2007 var Ratatouille gefin út. 9. október sama árs hafði ágóði af miðasölu myndarinnar náð 19,7 milljón bandaríkjadollara um allan heim sem gerði hana að ágóðamestu kvikmynd vikunnar.[12] Myndin er sú fyrsta sem Pixar á fullan eignarrétt yfir.[13] Ári síðar kom Wall-E út sem var valin sem besta teiknimyndin á óskarsverðlaununum sama árs.[14] Í kjölfarið fengu leikstjórar Pixar æviverðlaunum á Feneyjarverðlaununum.

Næsta útgefna kvikmynd Pixar var Up. Hún varð opnunarmynd kvikmyndarhátíðarinnar i Cannes 2009, en það er í fyrsta skipti sem teiknimynd opnar hátíðina.[14] Ári síðar fékk myndin verðlaun sem besta teiknimynd óskarsins.[15]

2010 var Leikfangasaga 3 frumsýnd. Hún fékk bestu gagnrýni rottentomatoes.com, 100% fersk og hæstu sölutölur í miðasölu kvikmyndahúsa.[16] Kvikmyndin er á hvítum lista yfir kvikmyndir sem koma til greina fyrir óskarsverðlaunin 2011.[17]

Framleiðsla

[breyta | breyta frumkóða]

Kvikmyndir Pixar eru alltaf klipptar fyrst út frá handriti. Mjög dýrt er að teikna og gæða atriði lífi sem síðan á endanum enda eingöngu í ruslafötunni.[18] Handritshöfundar sem hafa komið að kvikmyndum Pixar eru á borð við Joss Whedon handritshöfund vampírubanans Buffy sem vann að Leikfangasögu, leikara The Wire Tom McCarthy sem vann að Up og loks handritshöfund Little miss sunshine Michael Arndt sem vann að Leikfangasögu 1-3.[5]

Með hverri kvikmynd sem Pixar hefur gefið út hefur hugbúnaðardeild þeirra búið til tækninýjung. Í Bílunum var það endurspeglun á bílum og rúðum, í Skrímsli hf. var það feldurinn og í Leitin að Nemo var það getan að búa til teiknimynd neðansjávar.[3]

Pixar hefur einnig lært af Disney og notað stórstjörnur til að talsetja kvikmyndir sínar. Tom Hanks talsetti Leikfangasögu 1-3, Holly Hunter Hina ótrúlegu og William Dafoe Leitina að Nemo. Í kvikmyndum og stuttmyndum fyrirtæksins eru tilvísanir í hluti eða persónur úr stuttmyndum fyrirtækisins og í Leikfangasögu 3 er að finna tilvísun í japönsku kvikmyndina My Neighbor Totoro sem var framleidd af japanska teiknimyndaframleiðandanum Studio Ghibli. Pixar hefur jafnframt breytt markhópi teiknimynda og í dag kjósa stærstu kvikmyndagerðamenn heims að vinna við myndir sem töldust áður eingöngu fyrir börn.[5]

Listi yfir kvikmyndir

[breyta | breyta frumkóða]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]